EBITDA Eikar fasteignafélags árið 2018 nam 5.218 m.kr. samkvæmt stjórnendauppgjöri félagsins. Eru niðurstöðurnar í takti við uppfærðar væntingar félagsins við birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs en EBITDA félagsins er rétt undir neðri 1% mörkum sem félagið hefur til viðmiðunar vegna frávika um EBITDA spá. Greinir félagið frá þessu í tilkynningu til Kauphallar.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað fjárfestingareigna og afskriftir nam 5.218 m.kr. Matsbreyting fjárfestingareigna, söluhagnaður fjárfestingareigna og endurmat eigna til eigin nota námu 1.849 m.kr. Handbært fé frá rekstri nam 2.909 m.kr og bókfært virði fjárfestingareigna nam 94.016 kr.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2019 miðað við 2,5% meðalverðbólgu eru:

  • Tekjur verða 8.709 m.kr.
  • Gjöld verða 2.736 m.kr.
  • Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður verður 414 m.kr.
  • EBITDA verður 5.560 m.kr.

Hér að neðan má finna ítarlegri upplýsingar um stjórnendauppgjör og forsendur fjárhagsáætlunar.

Stefna um arðgreiðslu og endurkaup

Stjórn Eikar fasteignafélags hf. hefur ákveðið að arðgreiðslustefna vegna ársins 2018 verði óbreytt og að stefnt skuli að því að greiða hluthöfum arð sem nemur um 35% af handbæru fé frá rekstri ársins 2018, á árinu 2019, eða sem nemur kr. 1.020.000.000.

Af handbæru fé sem myndast frá rekstri á árinu 2019 hyggst stjórn félagsins nýta þann hluta sem ætlaður er hluthöfum til bæði endurkaupa á eigin bréfum samkvæmt endurkaupaáætlun og arðgreiðslu.

Sú stefna sem stjórn hefur samþykkt um endurkaup gerir ráð fyrir að félagið kaupi, fyrir 9. mars 2020, allt að 40.000.000 hluti, sem jafngildir um 1,15% af útgefnu hlutafé. Ekki verði keyptir hlutir fyrir meira en kr. 300.000.000. Í kjölfarið breytist arðgreiðslustefnan þannig að stefnt verði að greiðslu arðs á árinu 2020 vegna ársins 2019 sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri ársins 2019 að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt hefur verið í endurkaup fram að boðun aðalfundar ársins 2020.

Nánari útfærsla endurkaupanna bíður samþykktar formlegrar endurkaupaáætlunar en til stendur að fela fjármálafyrirtæki framkvæmd hennar.