Kúba fékk á tímum kaldastríðsins talsverðar fjárhæðir frá kommúnistaríkjum víðs vegar um heiminn. Eitt þessara ríkja var Tékkland, en Kúba skuldar yfirvöldum um 276 milljónum dollara.

Fjármálaráðherra Tékka fundaði nýlega með embættismönnum í Havana. Á þessum fundum komu Kúbverjar með afar óhefðbundnar tillögur til þess að greiða niður skuldir sínar.

Furðulegasta tillagan var þó líklega sú að láta Tékka fá romm í stað reiðufjárs. Samkvæmt BBC voru Kúbverjar tilbúnir að láta Tékka fá birgðir sem myndu endast í rúma öld.

Ráðamenn í Prag eru mis hrifnir af tillögunum, en fjármálaráðherra Tékklands ætlar þó ekki að útiloka kostinn.