Tilnefningarnefnd Reita fasteignafélags leggur til að Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar sem var nýlega ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla Brims, verði kjörin í stjórn félagsins. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndarinnar til aðalfundar .

Leggur tuilnefningarnefndin til að ásamt Grétu muni Kristinn Albertsson, Martha Eiríksdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Þórarinn Viðar Þórarinsson mynda stjórn fasteignafélagsins. Öll sitja þau þegar í stjórn félagsins. Kristinn hefur setið í stjórn Reita frá árinu 2017, Martha frá árinu 2013, Sigríður frá árinu 2019 og Þórarinn, sem hefur setið lengst í stjórninni, frá árinu 2009.

Ef farið verður eftir tillögum tilnefningarnefndar mun Gréta María taka sæti Thomasar Möller í stjórn Reita, en hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Í tilnefningarnefnd Reita sitja þau Margret G. Flóvenz, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Þórir Á. Þorvarðarson.