Fjármálafyrirtækið Merrill Lynch hefur greint frá því að sumir af þeirra ríkustu viðskiptavinum séu orðnir svo hræddir við efnahagsástandið og pólitískan óstöðugleika í heiminum að þeir heimti nú að fá keyptar gullstangir og engar refjar.

Krugerand og aðrir gullpeningar koma þó líka til greina.

Gary Dungan, yfirmaður fjárfestinga fyrir bandaríska banka hjá Merril Lynch, segir að miklar breytingar hafi orðið á markaðnum að undanförnu.

„Fólk er eðlilega áhyggjufullt og það vill fá áþreifanleg verðmæti til að fjárfesta í. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að fá símtöl frá viðskiptavinum sem segjast vilja fá kassa af krugerands.

Merril Lynch spáir því að gullverð muni fljótlega rjúfa fyrra met sem var 1.030 dollara á únsuna. Verðið muni fara í 1.150 dollara í júní. Hvað sem gerist muni gullið standa vel fyrir sínu í þeim óróleika sem framundan er. “Its win-win either way,” segir Dungan.

Þess má þó geta að gull hefur heldur verið að lækka á markaði í dag og stóð únsan um miðjan dag í tæpum 846 dollurum. Gullmyntir eru þó á talsvert hærra verði en misjafnt eftir því hvaða myntir er um að ræða.

Ef spá Merril Lynch reynist rétt, gætu gullkaupendur verið að horfa fram á talsverðan hagnað á næstu mánuðum.