Viðræður standa yfir um að breyta opinbera lífeyriskerfinu þannig að eftirlaunaaldur verði hækkaður úr 65 í 67 ár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt fréttinni verður áunnum réttindum breytt í takt við almenna lífeyriskerfið og mun ríkið greiða bætur fyrir breytingarnar. Stjórnvöld hafa að undanförnu staðið í viðræðum við stéttarfélög opinberra starfsmanna um stórtækar breytingar á lífeyriskerfinu. Ljóst þykir að ríkissjóður mun greiða háa upphæð í bætur í opinbera kerfið ef þetta gengur eftir þar sem lífeyriskjör opinberra starfsmanna myndu skerðast til lengri tíma frá því sem nú er.

Svo gæti farið að frumvarp um breytingar á lífeyriskerfinu verði lagt fram í haust. Samkvæmt Fréttablaðinu verður þá eitt lífeyrissjóðakerfi í landinu eftir breytingarnar í stað tveggja eins og nú.