Bandarísku íbúðalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac hafa nú til skoðunar að rýmka útlánaheimildir sínar. Reyndar stunda sjóðirnir ekki beina útlánastarfsemi, heldur kaupa fasteignalán af fjármálastofnunum. Eftir bankahrunið hafa þeir neitað að kaupa lán þar sem hlutfall lánsfjárhæðar af kaupverði eignar er of hátt.

Forstjóri húsnæðismálastofnunar bandaríska ríkisins, FHFA, sem hefur eftirlit með sjóðunum vill hins vegar auka aðgengi almennings að lánsfé og vill að sjóðirnir tveir geti keypt á ný lán þar sem lánshlutfall er allt að 97%.

Hafa þessi áform sætt töluverðri gagnrýni, þar sem lánastarfsemi sem þessi hefur verið talin ein af orsökum bólunnar fyrir hrun og hrunsins sjálfs.