Meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar leggur til að laun nýs bæjarstjóra hækki um meira en 30%, að því er kemur fram í bókun minnihluta bæjarráðs.  Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Hafnarfjarðar að ekki liggi fyrir drög að ráðningarsamningi en samkvæmt minnisblaði sem lagt var fram á fundinum er gert ráð fyrir að laun bæjarstjóri hækki um 31,5% miðað við núgildandi starfskjör.

Þessar upplýsingar sem fram koma í minnisblaðinu eru lagðar fram án allrar umræðu og aðkomu bæjarstjórnar, að því er kemur fram í bókun fulltrúa minnihlutans en þar segjast þeir mjög hugsi yfir því hvaða skilaboð felast í slíkri hækkun á launum æðsta embættismanns sveitarfélagsins.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir í töluvpósti til Viðskiptablaðsins raunverulega prósentuhækkun launa bæjarstjórans umtalsvert lægri en minnihlutinn hafi látið frá sér fara um málið. Heildarlaun fráfarandi bæjarstjóra hafi verið 1.250.000 krónur, en nýr bæjarstjóri verði ráðinn með heildarlaun upp á 1.480.000 krónur. Samkvæmt þessu nemur hækkunin 18,4%.