*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 4. nóvember 2019 12:53

Vilja hækka Seðlabankann

Vegna 40% fjölgunar starfsmanna Seðlabankans hefur verið sótt um heimild til að hækka Svörtuloft um tvær hæðir.

Ritstjórn
Tvær hæðir munu bætast ofan á húsnæði Seðlabanka Íslands við Arnarhól ef umsókn þess efnis fær brautargengi hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík. Þess má geta að hótelið hinum megin Kalkofnsvegarins hefur einnig verið hækkað á umliðnum árum.
Haraldur Guðjónsson

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið til afgreiðslu umsókn Seðlabanka Íslands um stækkun húsnæðis hans við Kalkofnsveg 1 með því að byggja tvær hæðir ofan á húsið að því er Morgunblaðið greinir frá. Skuggaáhrif af hækkun húsnæðisins, sem oft eru kölluð svörtuloft, um tvær hæðir eru sagðar óveruleg í greinargerð Arkþings fyrir umsókn bankans um stækkunina.

Eru rökin fyrir stækkuninni meðal annars sögð þau að með sameiningunni við Fjármálaeftirlitið og flutningi starfsemi þess í húsnæðið niður á Kalkofnsveg muni starfsfólki bankans fjölga um 40% og því þurfi að stækka húsnæðið.

Í umsókninni er jafnframt bent á að í upprunalegri hönnun hússins hafi verið gert ráð fyrir að það yrði tveim hæðum hærra, en það hafi síðan lækkað í hönnunarferlinu. Seðlabankinn flutti í húsnæðið árið 1987 sem er með um 13 þúsund fermetra gólfflöt, en var fram að því í þriggja áratuga sambýli með Landsbankanum.