*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 26. apríl 2018 16:32

Vilja hærra álag á ferðamenn

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðamenn geta verið tækifæri fyrir heilbrigðiskerfið, en þjónustan er ódýr og spítalinn fær ekki að hækka álag.

Ritstjórn
Landspítalinn fer eftir verðskrá velferðarráðuneytisins þegar ferðamenn eru rukkaðir, auk heimildar um 10% álag.
Haraldur Guðjónsson

Bjarnheiður Hallsdóttir nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og framkvæmdastjóri Kötlu DMI segir í Morgunblaðinu að líta megi á ferðaþjónustuna sem tækifæri fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Landspítalinn hefur ítrekað farið fram á við velferðarráðuneytið að fá að hækka álögur á meðferðarkostnað við þá sem eru staddir hér á landi en eru ekki sjúkratryggðir.

„Í raun má líta á ferðaþjónustu sem tækifæri fyrir heilbrigðiskerfið, þar sem ferðamenn greiða fullt gjald fyrir þjónustuna,“ segir Bjarnheiður en hún vill að komið sé inn á heilbrigðiskerfið í heildstæðri stefnumótun um ferðaþjónustuna. „Þá kæmi slík stefnumörkum einnig inn á heilbrigðiskerfið þar sem ferðamenn þurfa að geta gengið að góðri heilbrigðisþjónustu um land allt.“

Segja 10% álag ekki endurspegla meðferðarkostnaðinn

Í samanburðarskýrslu McKinsey frá 2016 kemur hins vegar fram að meðferð við Lanspítala-Háskólasjúkrahús sé gjarnan mun ódýrari en annars staðar, að því er Morgunblaðið fjallaði um á dögunum. Það sé þrátt fyrir að spítalinn hafi heimild til að leggja 10% álag á meðferðarkostnað þeirra sem staddir eru hér á landi og eru ósjúkratryggðir.

Í svari Landspítalans við fyrirspurn blaðsins um málið segir að spítalinn hafi ítrekað óskað þess við velferðarráðuneytið að álagið verði hækkað, enda endurspegli það ekki kostnað sem falli til við umsýslu þessara sjúklinga og aðstandenda þeirra. 

Jafnframt þurfi Landspítalinn ítrekað að afskrifa hluta krafna sem ekki innheimtast. Á síðasta ári fengu tæplega 3.000 einstaklingar frá yfir 100 þjóðlöndum utan Íslands þjónustu einu sinni eða oftar. Tveir þriðju þeirra komu vegna annarra ástæðna en áverka.