Landsbankinn vill byggja nýjar höfuðstöðvar bankans í miðborg Reykjavíkur. Bréf frá bankastjóra Landsbankans þessa efnis var lagt fyrir á borgarráðsfundi í gær.

Landsbankinn leggur áherslu á að vinna við bygginguna hefjist sem fyrst en tiltekur ekki hvar nákvæmlega höfuðstöðvarnar eigi að vera. Borgarráð ræddi bréfið í fundi sínum í gær, strax í kjölfar þess að rætt var um uppbyggingu á Hörpureitnum.

Landsbankinn segir hins vegar að ekki sé verið að óska eftir viðræðum um sérgreinda lóð, heldur sé þetta almenn ósk um viðræður um lóð undir höfuðstöðvar. Árni Geir Pálsson, verkefnastjóri hjá Sítusi hf., segir í samtali við Morgunblaðið að ljóst sé að Landsbankinn hafi lengi haft áhuga á að byggja á reitnum nærri Hörpu.