Samstaða ríkir um það í utanríkismálanefnd að halda þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi áfram, en greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Við erum að verja ákveðin prinsipp sem eru varin samkvæmt alþjóðareglum og sáttmálum og þetta er brotið af Rússum í þessu tilfelli,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við Fréttablaðið. Segir hann málið snúast um að Ísland hafi alltaf varið sig með tilvísunum í lög um slíka sáttmála og ekki sé hægt að gefa afslátt af því prinsippi.

Gunnar Bragi segir að líkurnar á því að Rússar beiti Ísland viðskiptabanni séu meiri heldur en áður, en þó sé ekkert staðfest hvað það varðar þar sem íslensk stjórnvöld hafi fengið misvísandi upplýsingar frá þeim rússnesku.

Segir hann einnig að á fundinum hafi verið ræddar hugmyndir um hvort stjórnvöld kæmu útflutningsaðilum til aðstoðar verði af viðskiptabanni, t.d. hvort veita ætti opinber framlög til þeirra útflutningsaðila sem hljóta skaða af.