Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að að Landsvirkjun verði áfram að fullu og öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru: Sigurður Ingi Jóhannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.

Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, skrifar á Facebook síðu sína að ríkisstjórnin hafi sýnt að hún vilji einkavæða ýmsa hluti og selja eigur ríkisins. „Þeir hafa lítinn vilja sýnt til að ræða slíka hluti á Alþingi. Við Framsóknarmenn viljum að Landsvirkjun sé í eigu þjóðarinnar og með því að leggja þessa þingsályktun fram - viljum við kalla fram umræðu og skoðun Alþingis,“ skrifa hann enn fremur.

Í þingsályktunartillögunni kemur meðal annars fram að „Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum. Starfsemi Landsvirkjunar hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi, bæði með auknu öryggi í afhendingu raforku og miklum gjaldeyristekjum. Þessa stöðu ber að varðveita.“