Fjártæknifyrirtækið Kríta hf. hyggst safna hálfum milljarði króna í skuldabréfaútboði sem auglýst verður og kynnt fjárfestum í vikunni. Kríta er sérhæft fjármögnunarfyrirtæki sem notar fjártækni til að þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki.

Kríta hóf að markaðssetja þjónustu sína á vormánuðum 2019 og síðan hafa umsvif fyrirtækisins vaxið hratt. Þessi hraða aukning viðskipta fyrirtækisins er ástæða skuldabréfaútboðsins á þessum tímapunkti.

„Vöxtur okkar hefur verið mun meiri og hraðari en við áætluðum og erum við því fyrr komin á þann stað að fjármagna okkur á þennan hátt,“ segir Sigurður Freyr Magnússon, forstjóri Kríta, um útboðið.

„Ég á von á að fjárfestar verði áhugasamir þar sem kjör skuldabréfanna eru góð og ég hef trú á því að þau séu spennandi valkostur fyrir fagfjárfesta. Þessi mikli vöxtur okkar sýnir að þjónustan er eftirsótt og ég geri ráð fyrir að vöxtur fyrirtækisins haldi áfram af fullum krafti,“ segir Sigurður Freyr um tilefni þess að félagið ræðst í skuldabréfaútgáfuna.