Fjórir þingmenn Norðausturkjördæmis vilja að rannsóknarboranir fari fram á Þeistareykjum sumarið 2009 vegna orkuöflunar og undirbúnings virkjunarframkvæmda fyrir álver á Bakka við Húsavík.

Þeir hafa lagt þingsályktunartillögu þessa efnis fram á Alþingi. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Í greinargerð tillögunnar segir m.a. að það vanti herslumuninn til að ljúka nauðsynlegum rannsóknarborunum á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum, en til stóð að þeim yrði lokið sumarið 2009. Úrskurður umhverfisráðherra frá því í sumar setti hins vegar strik í reikninginn.

,,Til að verkefnið um sjálfbært samfélag með álver á Bakka geti orðið að veruleika sem fyrst er nauðsynlegt að ríkisvaldið beiti sér án tafar í málinu,"  segir í greinargerðinni.

Þar segir enn fremur að mikilvægi verkefnisins fyrir Norðausturland og þjóðarbúið allt hafi aukist gríðarlega í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem íslenska þjóðarbúið standi frammi fyrir. Álver á Bakka muni skapa allt að 500 ný störf  í Norðurþingi og nágrenni og um 200 störf á Eyjafjarðarsvæðinu.

,,Verkefni á borð við þetta auka hagvöxt á framkvæmdatíma auk þess sem landsframleiðsla til framtíðar verður meiri en áður. Útflutningsverðmæti munu aukast eftir að verksmiðjan hefur störf. Án hagvaxtar er vandasamt að auka þjónustu ríkisins við almenning. Verkefnið er því til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og landsmenn alla."

Meðflutningsmenn Kristjáns Þórs eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki og Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu.

Tillöguna í heild má finna hér.