*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 27. ágúst 2018 11:17

Vilja heimila lengri ríkisskuldabréf

Lengri ríkisskuldabréf en til 25 ára eru sögð geta gert fjármögnun ríkissjóðs hagkvæmari og verið ákjósanleg fyrir lífeyrissjóði.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi sem myndi heimila útgáfu ríkisskuldabréfa með yfir 25 ára lánstíma.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að lengri bréf geti verið ákjósanlegur fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta með langtímaskuldbindingar, svo sem lífeyrissjóði. Ætla megi að fyrirsjáanleg stækkun sjóðanna gæti leitt til aukinnar eftirspurnar eftir lengri skuldabréfum af þeirra hálfu. Með þeim breytingum sem lagðar séu til í frumvarpinu verði ríkissjóði unnt að mæta þessari eftirspurn lífeyrissjóðanna, sé hún fyrir hendi, með útgáfu lengri skuldabréfa.

Breytingin er sögð gera „ríkissjóði kleift að kanna hvort tryggja megi að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum sjóðsins sé mætt við lægri tilkostnað en áður með útgáfu lengri ríkisskuldabréfa en nú eru heimil.“ Verði það raunin megi reikna með að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki.

Þá er útgáfa lengri bréfa sögð geta auðveldað ríkissjóði að ná markmiðum um meðallánstíma.