Hátt í fimm þúsund manns hafa nú ritað undir áskorun þess efnis að stjórnvöld heimili Atlantsolíu sölu á lituðu bensíni. Slíkt bensín væri undanþegið 32,95 krónu bensíngjaldi sem markað er til vegamála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atlantsolíu.

„Myndi bensínlítrinn þannig lækka niður fyrir hundrað krónur og kosta því svipað og lituð díselolía. Flestir sem ritað hafa undir eru eigendur vélhjóla til notkunar á lokuðum svæðum en fast þar á eftir koma eigendur sláttuvéla og vélsleða. Allt eru þetta eigendur tækja sem ekki slíta vegum landsins,” segir í fréttatilkynningunni.

Undirskriftalistinn verður afhentur stjórnvöldum í þessari viku en nokkrir hagsmunahópar hafa lýst stuðningi sínum við málefnið.

Þannig hafa fjölmargir liðsmenn Landsbjargar ritað nafn sitt á áskorunina en samtökin reka 200 vélsleða, 15 snjóbíla með bensínvél, 90 slöngubáta með bensín utanborðsmótor ásamt 35 harðbotna bátum með bensínmótor.

Að sögn Kristins Ólafssonar framkvæmdastjóra samtakanna má áætla að samtökin greiði um 1,5 milljónir kr. í bensíngjald sem markað er til vegamála vegna þessara tækja.

Hátt í 2000 eigendur vélhjóla til notkunar á lokuðum svæðum hafa ritað nafn sitt. Þá hafa hát í 2000 eigendur vélsleða einnig ritað nafn sitt að því er kemur fram hjá Atlantsolíu.

Þá segir einnig að hátt í eitthundrað eigendur eða notendur flugvéla og fisflugvéla hafi ritað nafn sitt á listann.