*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 22. mars 2018 11:33

Vilja hjólastíg til Keflavíkur

Nú vilja þingmenn ekki bara lest og tvíbreiðan veg fyrir farþega á leið til og frá Keflavíkurflugvelli heldur líka hjólastíg.

Ritstjórn
Reykjanesbrautin er nú aðalsamgönguæðin milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar.
Haraldur Guðjónsson

Fjöldi þingmanna úr hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að byggð verði upp hjólaleið milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Tillöguflytjendur eru allir úr Suður-, Suðvestur-, og Reykjavíkurkjördæmunum, og úr öllum flokkum nema Framsóknarflokki og Flokki fólksins.

Í tillögunni er vísað í kostnaðargreiningu í lokaritgerð Eiríks Ástvalds Magnússonar um slíkan hjólastíg sem myndi í stórum dráttum liggja eftir gamla Keflavíkurveginum og Vatsnleysustrandarvegi og malbik lagt á hluta þeirrar leiðar þar sem nú eru malarvegir ásamt tengingum. Meðal þeirra röksemda sem settar eru fyrir hjólastíg eru aukin hætta fyrir hjólandi á vegöxl Reykjanesbrautar, sem sé hönnuð fyrir 110 km hámarkshraða, samfara hugmyndum um að hækka hámarkshraða á þjóðveginum.

Þar er áætlaður kostnaður um 327 milljónir króna, en síðan þá hefur verið gerður hjólastígur frá Keflavíkurflugvelli til miðbæjar Keflavíkur. Í gegnum árin hafa fjölmargar hugmyndir komið fram um bættar samgöngur milli flugvallarins og höfuðborgarsvæðisins, en þær hafa flestar snúið að vegabótum sem og tillögum að lestarsamgöngum þar sem verðhugmyndir hafa hlaupið á milljarðatugum.

Tillagan sem nú liggur fyrir Alþingi snýr að því að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp um gerð fýsilegrar hjólaleiðar milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Er ætlunin að starfshópurinn skili af sér áfangaskiptri og kostnaðargreindri tillögu að ákjósanlegri hjólaleið fyrir 1. janúar á næsta ári.

Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisnar er fyrsti flutningsmaður tillögunnar um að byggður verði upp hjólastígur.

Einnig standa að tillögunni þingmennirnir:

 • Jón Steindór Valdimarsson - Viðreisn, Suðvesturkjördæmi
 • Þorgerður K. Gunnarsdóttir - Viðreisn, Suðvesturkjördæmi
 • Þorsteinn Víglundsson - Viðreisn, Reykjavíkurkjördæmi Norður
 • Ásmundur Friðriksson - Sjálfstæðisflokki, Suðurkjördæmi
 • Birgir Þórarinsson - Miðflokkurinn, Suðurkjördæmi
 • Björn Leví Gunnarsson - Píratar, Reykjavíkurkjördæmi Suður,
 • Guðmdundur Andri Thorsson - Samfylkingin, Suðvesturkjördæmi
 • Helga Vala Helgadóttir - Samfylkingin, Reykjavíkurkjördæmi Norður
 • Oddný G. Harðardóttir - Samfylkingin, Suðurkjördæmi
 • Ólafur Þór Gunnarsson - VG, Suðvesturkjördæmi
 • Rósa Björk Brynjólfsdóttir - VG, Suðvesturkjördæmi,
 • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir - Píratar, Reykjavíkurkjördæmi Suður