Af 1.650 manns sem sóttu um íbúðir hjá stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta við Háskóla Íslands fá 261 úthlutað nýju plássi, en 824 fengu ekki inni.

Af þessum fjölda fengu 758 endurúthlutað leigueiningu sem þeir bjuggu áður í, en heildarfjöldi leigueininga stofnunarinnar eru 1.200 og geta þær hýst um 1.800 einstaklinga. Er þá tekið tillit til þess að 102 nýjar stúdentaíbúðir voru teknar í notkun á desember á síðasta ári.

Þó fjöldi þeirra sem fái ekki úthlutað fækki á milli ára segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi FS fjöldann gefa vísbendingu um húsnæðisvanda ungs fólks í dag í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er örlítið færra en í fyrra, en gríðarlega há tala. Það að það séu yfir 800 manns á biðlista endurspeglar slæmt ástand á húsnæðismarkaðnum,“ segir Rebekka en á síðasta ári voru 1.160 umsækjendur sem ekki fengu íbúð að hausti, 647 árið 2015 og um 800 árið 2014.

Fólk í doktors- og meistaranámi getur framlengt dvöl

„Það hefði kannski mátt búast við því að með fækkun í skólanum myndi fækka hlutfallslega umsóknum hjá okkur sem því næmi. En svo er það þannig að það er orðið algengar aða fólk sæki nám í lengri tíma. Fólk fer í doktors- og meistaranám, þannig að námstíminn lengist líka hjá fólki og þörfin er jafn mikil fyrir þetta húsnæði og hún var.“

Nú eru unnið að byggingu um 200 leigueininga við Vísindagarða auk tillagna um stækkun íbúðakjarna í Gamla garði, þar sem verða um 100 íbúðir, en markmið stofnunarinnar er að geta séð 15-20% háskólanema fyrir húsnæði. Hlutfallið er í dag um 9%, en Rebekka segir markmiðið ekki í sjónmáli.

„Eftir eitt og hálft ár, þegar við verðum komin með 300 leigueiningar í viðbót, þá vantar enn 500 íbúðir til að við getum náð að vinna niður biðlistann eins og hann lítur út í dag.“