„Þetta skip sem notað er í dag annar ekki eftirspurninni. Þegar það á að fara að byggja minna skip finnst mér það ekki glæsileg framtíðarsýn,“ segir Sigurður O. Friðriksson, húsasmiður í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið .

Þar segir að nokkur umræða fari nú fram í Vestmannaeyjum um hvort nýr Herjólfur, sem verið sé að undirbúa smíði á, sé nógu afkastamikil ferja fyrir leiðina eða hvort skynsamlegra væri að taka stærri gríska ferju á leigu til siglinganna. Hefur Sigurður því hafið undirskriftarsöfnun um áskorun til stjórnvalda um að efnt verði til atkvæðagreiðslu um vilja Eyjamanna í samgöngumálum.

Andrés Þorsteinn Sigurðsson, hafnsögumaður í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé þó varla raunhæft. „Ég vildi óska þess að fá skip hér að bryggju sem tæki 170 bíla. Það væri flott. Það gengur bara ekki upp í raunveruleikanum,“ segir hann. Bætir hann við að eitt af stærstu vandamálunum við Herjólf sé að hann sé of stór fyrir Landeyjahöfn og staðan yrði ekki löguð með stærra skipi.