Þingmenn úr röðum Samfylkingarinnar og Pírata hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að ráðstafað verði 15 milljónum króna árlega í fjárlögum til Íslandsdeildar Transparency International.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að stjórn Íslandsdeildar samtakanna áætli að til að standa undir rekstri þurfi hún að lágmarki 25 milljónir króna á ári. Flutningsmenn segja að tryggja þurfi rekstrargrundvöll deildarinnar „þar til hún hefur náð að festa sig betur í sessi og hefur tryggt rekstur sinn með styrkjum frá einstaklingum, eins og að er stefnt og unnið að“.

Samtökin Transparency International (TI) voru stofnuð árið 1992 til að vinna gegn spillingu í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi og starfar nú í meira en 100 löndum. Gagnsæi – samtök gegn spillingu voru stofnuð í desember 2014 í þeim tilgangi að sækja um aðild að Transparency International og vinna gegn spillingu í íslensku samfélagi. Íslandsdeild Transparency International var svo stofnuð árið 2021 að fyrirmynd og samkvæmt forskrift alþjóðasamtakanna.

Flutningsmenn benda á fordæmi fyrir styrkveitingunni í nágrannalöndum. Í Noregi styðji hið opinbera við Transparency í gegnum ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög. Í Svíþjóð hefur verið stofnaður sjóður fyrir samtök sem hafa það að aðalmarkmiði að berjast gegn spillingu sem lið í aukinni vernd fyrir uppljóstrara. Þá séu Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Ástralía, Nýja Sjáland, Kanada, Þýskaland, Írland, Svíþjóð og Sviss meðal þjóða sem hafi stutt við bakið á samtökunum. Tæplega 60% af rekstrarfé Transparency International koma frá opinberum aðilum.

Flutningsmenn tillögunnar eru Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Andrés Ingi Jónsson.

Órökstudd lækkun Íslands í alþjóðlegri spillingarvísitölu

Viðskiptablaðið fjallaði í byrjun síðasta árs um einkunnagjöf Íslands í spillingarvísitölu Transparency International en Ísland fékk 75 stig af 100 mögulegum árið 2020 samanborið við 78 stig árið áður en því lægri sem vísitalan því hærri mælist spilling. Íslandsdeild samtakanna lýsti því yfir að „fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni".

Við nánari athugun kom í ljós að fall Íslands í vísitölunni skýrðist einkum af einkunnagjöf Bertelsmann Foundation, eins af sjö matsaðilum sem gefa einkunn sem vísitalan er reiknuð út frá. Bertelsmann hefur í áraraðir stutt sig við huglægt mat Þorvaldar Gylfasonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri.

Bertelsmann Foundation gaf Íslandi 44 stig af 100 mögulegum en hinir sex matsaðilarnir gáfu Íslandi stig á bilinu 72-87. Án rökstuðnings lækkaði einkunnagjöf Bertelsmann úr 53 stigum í 44 stig á milli ára.

Sjá einnig: Spilling ekki aukist á Íslandi

Þegar spillingarvísitalan var endurreiknuð án einkunnagjafar Bertelsmann mátti sjá litlar breytingar á milli ára á tímabilinu 2012-2020. Út frá þessum mælikvarða var ekki tölfræðilegur munur á stigum Íslands á tímabilinu og lækkun Íslands.