Illugi Jökulsson rithöfundur gerði pistil Magnúsar Geirs Eyjólfssonar, ritstjóra Eyjunnar, að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Fasbók í dag, en í pistli þess síðarnefnda var óskað eftir alvöru vinstri flokki í stjórnmálin hér á landi.

Illugi segir það hárrétt athugað hjá Magnúsi Geir og þetta gangi ekki lengur. „Á ekki að fara að kjósa formann í Samfylkingunni? Kannski ráð að bjóða sig bara fram,“ segir Illugi.

Þessi uppástunga Illuga hefur fengið heldur hlýlegar viðtökur á samfélagsmiðlinum, því fáeinum mínútum eftir að hann lét ummælin frá sér hafði verið stofnaður hópurinn „ Illugi Jökulsson formaður Samfylkingarinnar “.

Á þremur klukkustundum hafa 148 manns skráð sig í hópinn, þar sem skorað er á Illuga að bjóða sig fram í formannsembættið.

„Þegar Illugi hefur látið undan þrýstingi fjöldans munu hér birtast hvatning hans Samfylkingarfólks og stefnan út úr ógöngum flokks og þjóðar,“ stendur skrifað á vegg hópsins. Illugi hefur ekki gefið út hvort hann verði við áskoruninni.