Á byggðaráðsfundi í Borgarbyggð í liðinni viku var lagt fram bréf frá þremur íbúum sveitarfélagsins þar sem óskað er eftir upplýsingum um lánveitingar Sparisjóðs Mýrasýslu.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns .

Þar kemur fram að bréfið rita þau Sveinn Hallgrímsson á Vatshömrum, Sæunn Oddsdóttir á Steinum og Sveinn Hálfdánarsson í Borgarnesi.

Samkvæmt frétt Skessuhorns fól byggðaráð sveitarstjóra að svara bréfriturum og senda þeim greinargerð frá Capacent um málefni sjóðsins.

Sveinbjörn Eyjólfsson lagði fram svohljóðandi vegna afgreiðslu þessa erindis: “Þetta bréf endurspeglar þá kröfu íbúa að gerð verði úttekt á falli Sparisjóðs Mýrasýslu. Minnisblað Capacents getur ekki talist fullnægjandi úttekt. Því ítreka ég þá kröfu mína að óháðum aðila verði falið að fara betur yfir málefni sjóðsins.”

Finnbogi Rögnvaldsson bókaði á móti og sagði: “Minnisblað Capacent skýrir í öllum meginatriðum hvað varð til þess að staða SPM versnaði hratt upp úr miðju ári 2007.”