Fjórir erlendir sérfræðingar munu sitja í stjórn Íslandsbanka samkvæmt áformum sem rædd hafa verið í skilanefnd Glitnis og vonast er til að gangi eftir. Lagt er upp með að tveir Íslendingar verði fyrir hönd kröfuhafa í stjórn bankans af sex fulltrúum sem kröfuhafar munu hafa. Íslenska ríkið mun svo vera með einn fulltrúa á grundvelli 5 prósenta hlut í bankanum. Bankasýsla ríkisins mun hafa umsjón með því hver tekur sæti í stjórn bankanna, sem kröfuhafar Glitnis eiga 95 prósenta hlut í og kröfuhafar Arion banka 87 prósenta hlut. Í tilfelli Landsbankans verða kröfuhafar eigendur að um 20 prósenta hlut og má reikna með að þeir verði með einn stjórnarmann í fimm manna stjórn, eða tvo í sjö manna stjórn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stendur vilji til þess hjá skilanefnd Glitnis að fá Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins (FME) og bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans, til þess að sitja í stjórn Íslandsbanka og jafnvel gegna stjórnarformennsku. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði ekki vera hægt að tilkynna um nöfn stjórnarmanna fyrr en FME og Samkeppniseftirlitið hefðu samþykkt tillögur um stjórnarmenn sem skilnefndin hefur sent stofnununum. "Fyrr get ég ekki tjáð mig um þessi mál," sagði Árni.  Fljótlega skýrist hverjir verða stærstu eigendur Íslandsbanka en unnið er að því að skrá inn kröfur í bú bankans. Skuldabréf á bankann hafa gengið kaupum og sölum, líkt og í hinum föllnu bönkunum tveimur. Vonir standa til þess að rúmlega 20 prósent endurheimtur náist á skuldabréf miðað við upphaflegt virði og hafa viðskipti verið með skuldabréfin miðað við þær endurheimtur undanfarin misseri, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Tveir af fjórum íslenskir Að sögn Steinars Guðgeirssonar, formanns skilanefndar Kaupþings, er ráð fyrir því gert að tveir stjórnarmanna Arion banka fyrir hönd kröfuhafa verði Íslendingar og tveir erlendir sérsfræðingar. Líklegt er því að meirihluti stjórnarmanna í Arion banka verði Íslendingar þrátt fyrir að 87 prósenta hlutafjár verði í eigu erlendra kröfuhafa að mestu leyti. Íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir íslenskir kröfuhafar eru þó einnig meðal kröfuhafa en hlutur þeirra verður að öllum líkindum mjög lítill. Skuldabréf Kaupþings hafa gengið kaupum og sölum að undanförnu miðað við 20-25 prósent endurheimtur miðað við upphaflegt verð. Meðal þeirra sem átt hafa í þessum viðskiptum eru erlendir vogunarsjóðir, m.a. þýskir, breskir og bandarískir.