Aðalfundur Eyþings ályktaði um atvinnu- og byggðamál á fundi sínum um síðustu helgi og beindi því til stjórnar Eyþings að kannaður verði grundvöllur þess að láta vinna úttekt á kostum og göllum að sameina sveitarfélög í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum í eitt.

Talsverð umræða var um atvinnu- og byggðamál á fundinum og í ályktunum er minnt á nauðsin þess að á norðaustursvæðinu verði haldið við þeim atvinnuþáttum sem þar hafi unnið sér hefð, jafnframt því sem leita þurfi nýrra tækifæra til að efla atvinnulíf og renna þannig stoðum undir frekari vöxt á öllum sviðum.

Í ályktun er einnig vikið að umræðu um stóriðju og hvatti aðalfundurinn atvinnuþróunarfélög á svæðinu til aukins samstarfs við undirbúning og kynningu þeirra kosta sem hægt sé að bjóða til hugsanlegs stóriðnaðar á svæðinu. "Einkum er brýnt að rannsaka nánar mögulega virkjunarkosti sem gætu hentað slíkri atvinnustarfsemi. Mikilvægt er þó að gæta þess að framkvæmdir á einu svið rýri ekki möguleika á nýtingu annarra auðlinda svæðisins, s.s. búskapar, ferðaþjónustu o.fl.," segir í ályktun aðalfundar Eyþings.

Þá fagnaði fundurinn Vaxtarsamningi fyrir Eyjafjörð og taldi sýnt að hann komi til með að nýtast nágrannabyggðum vel.

Við lok aðalfundar Eyþings á Þórshöfn sl. laugardag var kosin ný stjórn sambandsins. Jakob Björnsson tekur við formennsku af Reinhard Reynissyni en Jakob var í fyrri stjórn. Eina breytingin að öðru leyti á stjórnarskipan er að Þórunn Jónsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Þingeyjarsveit tekur sæti Guðnýjar Sverrisdóttur á Grenivík.

Skipan stjórnar og varastjórnar er þannig:
Formaður: Jakob Björnsson, Akureyri,
Aðrir í stjórn:
Reinhard Reynisson, Húsavík.
Ásgeir Logi Ásgeirsson, Ólafsfirði.
Björn Ingimarsson, Þórshöfn.
Þórunn Jónsdóttir, Þingeyjarsveit.