*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 30. október 2020 07:13

Vilja kaupa helming gasframleiðslunnar

Malbikstöðin vilja kaupa allt að milljón rúmmetrum af metani ári af nýrri ríflega 4 milljarða gas- og jarðgerðarstöð Sorpu.

Ritstjórn
Gaja er ný gas- og jarðgerðarstöð Sorpu sem kostaði um 4,2 milljarða, en þar af var 1,4 milljarðar í vanáætlaðann kostnað.
Aðsend mynd

Malbikstöðin & Fagverk og SORPA hafa undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu um kaup og sölu á allt að milljón normalrúmmetrum (Nm3) af hreinsuðu metangasi á ári. Það samsvarar tæplega helmingi af afkastagetu GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um fór kostnaðaráætlun við gerð stöðvarinnar 1,4 milljarða, eða tæplega fimmtung, fram úr kostnaðaráætlun, þannig að heildarverðmiðinn fyrir íbúa sveitarfélaganna sem að Sorpu standa nam 4,2 milljarða króna.

Birni H. Halldórssyni, forstjóra Sorpu byggðasamlags var í kjölfarið sagt upp, en félagið þurfti að taka einn milljarð króna í viðbótarlán vegna þess sem kallað voru mistök við fjárhagsáætlun verkefnisins.

Með yfirlýsingunni nú lýsa Malbikstöðin & Fagverk og SORPA yfir ætlun sinni að starfa saman að því að á komist bindandi samningur þeirra á milli um viðskipti með metan um mitt ár 2021.

Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að töluverð eftirspurn sé eftir metangasi frá GAJU. Það komi ekki á óvart.

„Við erum stolt af því og það er okkur heiður að styðja við framleiðslu á því sem gæti orðið grænasta malbik í heimi. Við höfum fengið mörg spennandi og áhugaverð verkefni fyrir metanið á okkar borð undanfarið. Þar má fremst í flokki nefna aðgerðir í orkuskiptum í vörudreifingu á landi,“ segir Helgi.

Metangasinu er ætlað að koma í staðinn fyrir umtalsvert magn af dísilolíu í starfsemi Malbikstöðvarinnar og Fagverks. Með því að nota metangas í stað dísilolíu til að framleiða malbik er ætlunin að fyrirtækin dragi umtalsvert úr svokölluðu kolefnisfótspori malbiksins.

„Þetta skref er eitt af mörgum mikilvægum í þeirri vegferð okkar að gera starfsemina mun umhverfisvænni,“ segir Baldur Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.

„Það er nauðsynlegt að allir leggi sitt á vogarskálarnar í þeim efnum og það ætlum við svo sannarlega að gera. Ekki nóg með að við framleiðum og leggjum malbik í hæsta gæðaflokki heldur stefnir allt í að við verðum með grænasta malbikið á heimsvísu. Það er eitthvað.“

Jón Viggó Gunnarsson, sérfræðingur SORPU í markaðs- og tækniþróun, heldur meðal annars utan um sölu og markaðssetningu á moltu og metani hjá SORPU.

„Við upplifum að þau sem leita til okkar til að kaupa metan ætli að taka skýra forystu í loftslagsmálum og sjálfbærni innan sinna geira með skjótum, afgerandi og árangursríkum aðgerðum á borð við þessar,“ segir Jón Viggó.

„Fagverk, eigandi Malbikstöðvarinnar, nálgaðist okkur fyrst og fremst á þeim forsendum. Það spillir ekki fyrir að metan er líka umtalsvert hagkvæmari kostur en dísilolía og annað jarðefnaeldsneyti. Sérstaklega í iðnaði og á stærri tæki eins og flutningabíla þar sem rafmagn er ekki raunhæfur kostur vegna þess hvað rafhlöður eru þungar og vetni er ekki enn orðið hagkvæm lausn.“

Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi Fagverks og Malbikstöðvarinnar segir félagið stolt af því að ná að hrinda verkefninu í framkvæmd.

„Ég er búinn að vera í þessum bransa í tugi ári og það er alltaf spennandi að hrista aðeins upp í hlutunum til að stuðla að jákvæðri þróun,“ segir Vilhjálmur Þór. „Malbikunarstöð okkar verður umhverfisvænni fyrir vikið og það er gleðiefni“.