*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 25. janúar 2018 12:49

Vilja kaupa hlut ríkisins í Arion

Kaupþing vill nýta kaupréttarákvæði til að kaupa 13% hlut ríkisins í Arion banka en félagið hefur ársfrest til að selja bankann.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eignarhaldsfélagið Kaupþing hyggst nýta kaupréttarákvæði í hluthafasamkomulagi við ríkið frá árinu 2009 til að kaupa 13% hlut ríkisins í Arion banka að því er Fréttablaðið greinir frá. Er sala á hlutnum nú til skoðunar í fjármálaráðuneytinu, en nú þegar á Kaupþing 57% hlut í bankanum í gegnum Kaupskil. 

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku hefur Kaupþing á ný boðið lífeyrissjóðum að kaupa í Arion banka, en stefnt hefur verið að því að skrá bankann á markað hér á landi sem og í Svíþjóð.

Hefur félagið ár til að selja hlut sinn í Arion banka, að öðrum kosti getur ríkið leyst hluta Kaupskila í bankanum, en þá fær ríkið einnig stærstan hluta af söluverði bankans sem hluta af stöðugleikaframlagi Kaupþings.

Hafa lífeyrissjóðirnir nú frest til 14. febrúar til að taka afstöðu til tilboðsins sem er rétt yfir genginu 0,8 miðað við eigið fé Arion banka samkvæmt 9 mánaða uppgjöri síðasta árs. Býst lífeyrissjóðunum að kaupa 5% í bankanum að því er Fréttablaðið greinir frá á þessu verði sem jafnframt segir að sjóðirnir gætu fengið stærri hluta en þá líklega á hærra gengi.