*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 15. júní 2018 19:01

Vilja kerfi til að eyða glaðlofti

Glaðloftseyðingarkerfi er eitt af því sem ríkisstofnanir óska eftir kaupum á. Svefnlyf með gróðurhúsa- og verkjastillandi áhrif.

Ritstjórn
Glaðloft fæst ekki á hefðbundnum gaskútum á bensínstöðvum enda notað við lækningar.
Haraldur Guðjónsson

Ríkiskaup hefur óskað eftir tilboðum í glaðloftseyðingarkerfi fyrir Landspítala Íslands Háskólasjúkrahús. Á vef Ríkiskaupa kennir ýmissa grasa og má finna margvíslegustu tilboð sem hinar ýmsu stofnanir ríkisins senda þangað inn.

Eitt tilboðið sem vekur skemmtilega athygli er ósk eftir kaupum á Glaðloftseyðingarkerfi fyrir Landspítala Íslands Háskólasjúkrahús.
Glaðloft, eða Nitrous Oxide er notað við svæfingar, en þó yfirleitt með öðrum lyfjum, þar sem í venjulegum skömmtum skerðir það ekki vökuvitund fólks til fullnustu. Fyrirspurnarfrestur er til 30. júní, svarfrestur til 3. júlí og opnunarfundur er 9. júlí næstkomandi.

Nýlegar rannsóknir sýna að glaðloft dregur einnig úr glútamínsýruvirkni í miðtaugakerfinu. Hjáverkanir af völdum þess eru þó fáar öfugt við það sem gildir um ketamín að því er segir á vefnum doktor.is. Það hefur þó umtalsverða verkjadeyfandi verkun. Glaðloft telst til gróðurhúsalofttegundar, og er hún talin hafa nálega 300 falda virkni á við koldíoxíð að því er segir á vef Umhverfisstofnunar.

Uppsprettur glaðlofts(N2O) eru bæði náttúrulegar og manngerðar. Helstu manngerðar uppsprettur eru landbúnaður, ýmsir iðnaðarferlar og eldsneytisbrennsla. Áburðarnotkun í landbúnaði leiðir til losunar glaðlofts þegar nítrat afoxast í jarðvegi fyrir tilstilli baktería, en einnig á sér stað losun við meðhöndlun húsdýraáburðar.

Við bruna eldsneytis losna köfnunarefnisoxíð (NOx) og í minna mæli glaðloft, en þessi efni myndast þegar köfnunarefni og súrefni andrúmsloftsins hvarfast vegna mikils hita í brunahólfinu. Notkun þrívirkra hvarfakúta í bílum eykur losun glaðlofts, sem myndast sem aukaafurð við afoxun köfnunarefnisoxíða í hvarfakútum.

Stikkorð: Landspítali Ríkiskaup Glaðloft