*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 5. nóvember 2018 15:51

Vilja kjósa nýja inn í stjórn VÍS

Stjórn VÍS hefur 14 daga til að senda út fundarboð því lífeyrissjóðir sem eiga 15% vilja hluthafafund vegna stjórnarkjara.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Vátryggingafélags Íslands eru í Ármúlanum.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn VÍS barst í dag bréf frá þremur hluthöfum, annars vegar Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem er eigandi 8,64% hlutafjár og hins vegar Lífeyrissjóði Starfsmanna ríkisins A-deild, sem á 5,27% og B-deild, sem á 0,98%, þar sem farið er fram á að stjórn félagsins boði til hluthafafundar þar sem stjórnarkjör er sett á dagskrá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá hættu þau Helga Hlín Hákonardóttir stjórnarformaður VÍS og Jón Sigurðsson í stjórninni vegna ágreinings. Sagði Valdimar Svavarsson nýr stjórnarformaður að deilurnar hefðu snerist um verkaskiptingu í stjórninni.

Helga Hlín hafði tekið við stjórnarformennsku í stjórnininni af Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur í kjölfar yfirheyrslna um sölu Skeljungs út úr Glitni árið 2008. Eftir situr í stjórninni, auk Valdimars og Svanhildar Nönnu, Gestur Breiðfjörð Gestsson varaformaður í stjórn.

Í lögum um hlutafélög auk samþykkta VÍS kemur fram að boða skuli til hluthafafundar ef hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjárins, krefjast þess skriflega og greina fundarefni.

Samtals eiga lífeyrissjóðirnir þrír 14,89% í VÍS. Samkvæmt sömu greinum hefur stjórn 14 daga til að senda út fundarboð. Stjórn félagsins mun á næstu dögum taka afstöðu til þessara krafna hluthafanna og undirbúa boðun hluthafafundar.