Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar hefur óskað eftir þremur lóðum í hlíðum Esju vegna fyrirhugaðar farþegaferju, eða svokallaðs kláfs. Umsóknin var tekin fyrir á fundi borgarráðs í síðustu viku og var í framhaldinu send til þriggja nefnda innan borgarinnar til umsagnar.

Morgunblaðið greinir í dag frá áformum verkfræðistofunnar, en starfsmenn hennar hafa skoðað aðstæður meðal annars út frá veðurfari og kostnaði. Haft er eftir Sigurði Skagfjörð Sigurðssyni að gera þurfi vandaða veðurrannsókn. Farþegaferjan yrði að norskri fyrirmynd, tæki 30 manns og hver ferð mun taka um fjórar mínútur. Að sögn Sigurðar er ætlunin að hafa veitingastað og þjónustu á tindi Esjunnar.

Áætluð verklok eru sögð í byrjun árs 2016, ef allt gengur að óskum.