Perlan auglýsir nú eftir starfsfólki til að hafa umsjón með aparólum (e. zip-line) sem mun ná frá Perlunni og niður í Öskjuhlíðarskóg. Um tilraunaverkefni til eins árs er að ræða sem borgarráð samþykkti undir lok síðasta mánaðar.

Samkvæmt atvinnuauglýsingu verður tveimur rúmlega 200 metra löngum línum komið fyrir í einum tanki Perlunnar og þaðan munu þær teygja sig niður Öskjuhlíðina. Gestir og gangandi munu geta komið þangað, sest í róluna og rennt sér salíbunu niður.

Gerð er sú krafa að starfsfólk hafi náð átján ára aldri og hafi gott vald á bæði ensku og íslensku. Mikilvægt er að fólk hafi reynslu í notkun klifurbúnaðar á borð við línu og karabínur og reynsla af fjallaklifri og björgunarsveitarstarfi er kostur. Starfsfólk mun hafa umsjón með línunni, taka á móti og fræða gesti um öryggismál auk annarra tilfallandi verkefna. Umsóknarfrestur er til næsta mánudags.