Samtök atvinnulífsins hafa sett fram metnaðarfulla stefnu, þannig að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára. SA segir að ef það markmið náist verði atvinnulífið fjölbreyttara og það muni skila meiri arðsemi. Verðmætasköpun þjóðarinnar muni jafnframt aukast og það sé forsenda fyrir betri lífskjörum Íslendinga. Stefnan verður kynnt á Ársfundi atvinnulífsins 2014 sem fram fer í Hörpu eftir hádegi á morgun.

Ísland er í dag í 29. sæti yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims samkvæmt IMD rannsóknarstofnuninni í Sviss sem mælir árlega samkeppnishæfni þjóða. Á aðeins sjö árum hefur Ísland fallið niður um 25 sæti á lista IMD en sterk fylgni er á milli samkeppnishæfni og lífskjara.