*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 21. mars 2015 17:10

Vilja komast upp úr hjólförunum

Formaður BHM segir að fólk sem búið sé að fjárfesta í háskólaprófi eigi ekki að bera minna úr bítum en 400 til 450 þúsund á mánuði.

Trausti Hafliðason
Axel Jón Fjeldsted

Samningar BHM við ríkið runnu út 28. febrúar. Í Bandalagi háskólamanna eru 27 aðildarfélög með um 11 þúsund félagsmenn. Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að samningaviðræðurnar núna nái til um 4 til 5 þúsund félagsmanna. BHM hefur boðað verkfallsaðgerðir frá og með 7. apríl.

„Við erum að reyna að komast upp úr þeim hjólförum sem allar viðræður virðast vera komnar ofan í," segir Páll. „Við lentum mjög hressilega ofan í þeim í fyrra og komumst ekki upp úr þeim. Ef menn vilja fá eitthvað þá verða þeir að gera eitthvað. Ég er ekkert svo svartsýnn á þessar viðræður ef við komum þeim út á svolítið víðara svið. Við viljum auðvitað fá verulegar launabætur en við erum líka tilbúnir að tala um ýmislegt í okkar umhverfi."

Páli hugnast ekki tilboð ríkisins upp á 3,5% launahækkun.

„Það var mjög mikið ósætti í okkar baklandi þegar við gengum frá 2,8% samningi í fyrra. Við seldum þann samning alltaf sem vopnahléssamning og nú gera menn kröfu um töluvert meira. Ef menn telja að mannsæmandi laun séu 300 þúsund á mánuði þá teljum við að fólk sem er komið með háskólapróf, er búið að fjárfesta í menntun, eigi ekki að bera minna úr bítum en 400 til 450 þúsund. Okkar lægsti taxti í dag er 269 þúsund krónur." 

Fjallað er ítarlega um yfirvofandi verkföll í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.