Átta þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um þáttöku Íslands í NATO. Sjö þingmannanna eru í VG, en auk þeirra er Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

„Þjóðin hafði ástæðu til að efast um réttmæti þess að Ísland gerðist aðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu fyrir rúmum 60 árum en var ekki gefið færi á að móta heildstæða afstöðu til ákvörðunarinnar," segir í þingsályktuninni.

NATO ekki lengur varnarbandalag

Að mati þingmannanna átta er eðli sambandsins nú orðið breytt og það ekki lengur hefðbundið varnarbandalag. „Við endalok kalda stríðsins byrjaði að fjara undan sögulegum grundvelli Norður-Atlantshafsbandalagsins, sem hefur alla tíð síðan verið í leit að nýjum tilefnum til að réttlæta tilvist sína. Þessi leit hefur í krafti forusturíkja bandalagsins leitt það að hernaðarátökum fjarri upprunalegu áhrifasvæði bandalagsins við Norður-Atlantshaf og utan hins hefðbundna og yfirlýsta hlutverks þess sem bandalags um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna," segir í einum kafla tillögunnar.

Vilja þjóðaratkvæði um framhaldið

„Í ljósi þessarar sögu og breytts eðlis bandalagsins er nú fullt tilefni til að gefa þjóðinni nýtt tækifæri til að segja hug sinn um þróun bandalagsins og áframhaldandi þátttöku Íslands innan þess, sér í lagi þegar haft er í huga að nú stendur yfir vinna við mótun þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem afstaðan til Norður-Atlantshafsbandalagsins er lykilatriði," segir í þingsályktunartillögunni. Þingmennirnir vonast til þess að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi þáttöku Íslands í Nato.