Samþykkt hefur verið í borgarráði Reykjavíkurborgar að borgarstjóri geti, ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, sótt um að halda 33. verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 7.-13. desember árið 2020 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þar með eru borgirnar þrjár sem keppast um að halda hátíðina, en verði Reykjavík hlutskörpust er borgin og ríkið skuldbundin til að greiða allt að 135 milljónir króna hvor fyrir atburðinn. Kostnaðargreining fyrir atburðinn, sem unnin er í samvinnu við aðildarfélög Meet in Reykjavík og KPMG, metur heildarkostnaðinn við hátíðina á um 270 milljónir króna.

Að undirbúningi verkefnisins hafa komið auk fyrrnefndra aðila, fulltrúar frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum, má þar nefna menntamálaráðuneytisins, Kvikmyndamiðstöðvar, Íslandsstofu og RÚV. Telur hópurinn að hægt sé að ná kostnaði niður með því að leita kostunar og kostnaðarþátttöku stuðningsaðila og reyna að leita hagkvæmustu leiða.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1988 í Vestur-Berlín en markmið þeirra er að vekja athygli á kvikmyndagerð í Evrópu. Hún fer fram árlega, annað hvert ár í Berlín og svo til skiptis annað hvort ár í öðrum borgum Evrópu.

Í ár verður hún í Sevilla á Spáni, en á hátíðinni eru veitt verðlaun í 23 flokkum, þar af hafa Íslendingar nokkrum sinnum verið tilnefndir. Búist er við hátt í 1.400 gestum, auk blaðamanna, og síðan verður sýnt beint frá verðlaunakvöldinu.