Óskað hefur verið eftir kyrrsetningu á eignum Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóri United Silicon, hérlendis, vegna bótakröfu fyrirtækisins á hendur Magnúsi. Það er stjórn kísilversins sem fer fram á kyrrsetninguna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur félagið kært Magnús fyrir fjárdrátt.

Ekki er ljóst hvort tekin hafi verið efnisleg afstaða til kyrrsetningarinnar en einbýlishús Magnúsar í Kópavogi, sem hafði verið auglýst til sölu, er ekki lengur auglýst, að því er Vísir greinir frá.

Húsið er 304 fermetrar að stærð með ásett verð 150 milljónir króna. Ásökunin er sú að hann hafi dregið sér ríflega hálfan milljarð úr félaginu allt frá stofnun þess, en eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá neitar Magnús sök. Magnús segir ásökunina lið í tilraunum til að sölsa undir sig félagið.