Félag ráðgjafaverkfræðinga lýsir yfir miklum vonbrigðum með að tryggingagjald, sem var hækkað vegna hás atvinnuleysis í efnahagshruni, sé enn jafn hátt og raun ber vitni. Í ályktun er skorað á stjórnvöld að bregðast við með því að lækka tryggingagjaldið sem fyrst.

Félagið segir að tryggingagjald leggist mjög hart á fyrirtæki með háan launakostnað, eins og ýmis verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki. Einkum komi það sér illa nú þegar þau standi fyrir háum kjarasamningsbundnum launahækkunum.

„Mikilvægt er að færa gjaldið niður til þess sem það var áður en atvinnuleysi jókst skyndilega í kjölfar hamfaranna 2008,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Hátt tryggingagjald dregur úr afli fyrirtækja í að ráða til sín fleiri starfsmenn og veikir einnig samkeppnishæfni þeirra við erlend fyrirtæki,“ segir jafnframt.