Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur það í sér að lækka verð á eldsneytislítranum um 28 krónur.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að frumvarpið lækki jafnframt vísitölu neysluverðs um hátt í eitt prósent, sem aftur á móti auki kaupmátt og hafi bein áhrif til lækkunar á greiðslubyrði lána.

Þingflokkurinn gerir þó aðeins ráð fyrir tímabundinni lækkun, eða frá 1. apríl til 31. Desember. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en hann telur að nýlegar verðhækkanir á eldsneyti séu tímabundnar og því sé mikilvægt að mæta þeim með aðgerðum af hálfu hins opinbera til að minnka álagið á almenning

Frumvarpið gerir ráð fyrir  lækkun á almennu bensíngjaldi og olíugjaldi um tæpar 20 krónur á lítra sem leiðir til þess að verð á bensíni  og dísilolíu lækkar um 28 krónur vegna 25,5% virðisaukaskatts og álagningar.

„Þrátt fyrir lækkunina munu tekjur ríkissjóðs skerðast óverulega miðað við núverandi verðlag á bensíni og olíu þar sem útlit er fyrir að svo mikið dragi úr notkun með hækkunum að undanförnu, að hátt verð og hærra hlutfall skatta vegi ekki upp á móti samdrætti í sölu,“ segir í tilkynningu á vef Sjálfstæðisflokksins.

„Auk þess mun lækkun eldsneytisverðs hafa jákvæð áhrif víða í efnahagslífinu sem vinnur einnig á móti tekjutapi ríkissjóðs.“

Þá koma jafnframt fram eftirfarandi upplýsingar um samsetningu eldsneytisverðs:

„Bensínverð er nú um 231 króna, þar af tekur ríkið til sín um 49% í skatta. Skattarnir eru samsettir úr krónutölusköttum sem eru almennt bensíngjald (23,86 kr. á lítra), sérstakt bensíngjald (38,55 kr. á lítra) og kolefnisgjald (3,8 kr. á lítra) sem er nýr skattur sem lagður var á í fyrsta skipti um áramótin. Ofan á þessa skatta og kostnaðarverð leggst síðan virðisaukaskattur sem nemur 46,2 krónum. Samtals nemur hlutur ríkisins því 112,41 krónum. Á innkaupsverð dísilolíu leggst olíugjald (54,88 kr. á lítra), kolefnagjald (4,35 kr. á lítra) og virðisaukaskattur.“