Viðskiptaráð hvetur til þess að heimilt verði að selja lausasölulyf í almennum verslunum í lyfjastefnu sem gilda á til ársins 2022 sem liggur fyrir Alþingi.

Kemur þetta fram í umsögn ráðsins um þingsályktunartillögu um lyfjastefnuna, en markmið hennar er að aðgengi að lyfjum verði tryggt, ásamt gæði, virkni og öryggi þeirra, ásamt því að notkun þeirra verði skynsamleg og hagkvæm. Til að ná þeim markmiðum er meðal annars nefnt að kanna hvort heimila ætti að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum.

Heimilt í Skandinavíu

Segir ráðið slíka breytingu vera í samræmi við lagaumhverfi í viðmiðunarlöndum, ásamt því að bæta aðgengi og stuðla að aukinni samkeppni og því lækka verð. Nefnir ráðið að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sé slíkt heimilt, og sýni reynsla Norðurlandanna að slík sala hafi ekki leitt til ofnotkunar lyfja eða haft slæm áhrif á lýðheilsu.

Segir í umsögninni að einungis sé um að ræða lyf þar sem þekking og reynsla á notkun þess hafi sýnt að ekki þurfi að takmarka aðgengið, nema að magni til. Segir ráðið það stinga í stúf að á sama tíma og neytendum sé heimilað að kaupa lyfið án lyfseðils sé ákveðnum aðilum ekki heimilt að selja lyfið.