Frumvarp til nýrra lyfjalaga liggur nú fyrir þinginu og hefur fjöldi umsagna borist. Í nokkrum tilfellum er út á það sett að lögin hafi ekki að geyma heimild til sölu ákveðinna lausasölulyfja í hefðbundnum verslunum. Meginreglan var og verður sú, að óbreyttu, að bæði ávísanaskyld og lausasölulyf megi eingöngu selja á grundvelli lyfsöluleyfis og verður það áfram svo. Utan opnunartíma apóteka sé því ekki hægt að nálgast ólyfsseðilsskyld verkjalyf, hálstöflur, hóstasaft eða verkjastíla fyrir börn svo dæmi séu tekin.

Samkeppniseftirlitið bendir á það í umsögn sinni að breytingar Svía í þessa átt árið 2009 hafi leitt til þess að viðskiptavinir hefðbundinna verslana hafi notið lægra verðs í samanburði við apótek. Telur eftirlitið brýnt að velferðarnefnd þingsins hugi að því við meðferð frumvarpsins að auka frelsi í sölu lausasölulyfja.

„Með því að auka frelsi til sölu lausasölulyfja í almennum verslunum myndi þjónusta við almenning batna og samkeppni í sölu umræddra lyfja aukast. Á landsbyggðinni eru t.a.m. ýmis dæmi um að langt sé í næstu lyfjaverslun auk þess sem opnunartími apóteka er oft takmarkaður,“ segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins.

Lausasölulyfjahópur Samtaka verslunar og þjónustu gerir einnig athugasemd við að Ísland ætli ekki að stíga sama skref og nágrannalöndin hafa tekið í þessum efnum. Leggur hópurinn til að Lyfjastofnun verði veitt heimild til að veita undanþágu frá fyrrgreindri meginreglu á þann veg að almennar verslanir geti fengið takmarkað lyfsöluleyfi til þessa efnis. Lyfjastofnun verði einnig falið að birta lista á vef sínum yfir lyf, styrkleika þeirra og pakkningar sem heimilt er að selja í almennum verslunum.

Fyrirkomulag lyfjaeftirlitsgjaldsins enn þyrnir í augum gjaldenda

Fyrirkomulag lyfjaeftirlitsgjaldsins, sem ætlað er að standa undir kostnaði við lyfjaeftirlit, er næsta óbreytt í frumvarpinu frá gildandi rétti en það skal nema 0,3% af lyfjaveltu. Í umsögn Félags atvinnurekenda (FA) er bent á það að fjárhæð gjaldsins, sem getur numið afar háum fjárhæðum í tilfelli dýrra lyfja, sé ekki í neinu samræmi við fjölda eftirlitsheimsókna eða umfang eftirlitsins. Þá er eftirlitsgjaldið greitt mörgum sinnum af sama lyfi, til dæmis ef lyf er framleitt hér á landi hvílir greiðsluskylda á framleiðanda, heildsala og lyfsala. Árið 1998 var fyrirkomulag gjaldsins dæmt ólögmætt en þá var það lagt á með reglugerð en ekki hefur reynt á það síðan þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .