Níu þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Lilja Mósesdóttir, sem situr á þingi utan flokka, ætla að leggja fram frumvarp á Alþingi í dag sem felur í sér að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Þingmennirnir lögðu fram sama frumvarp í fyrra. Þeir segja að ef af verður megi spara þær tæpu 76 milljónir króna sem gert er ráð fyrir að renni til Bankasýslunnar í fjárlögum. Frumvarpið er síðasta mál á dagskrá á Alþingi í dag.

Í frumvarpinu segir m.a. að auk þess sem hlutaverk Bankasýslunnar sé ekki jafn umfangsmikið og gert hafi verið ráð fyrir þá sýni ráðning Páls Magnússonar í starf forstjóra Bankasýslunnar í fyrra að pólitísk afskipti af málefnum stofnunarinnar eru hvergi nærri úr sögunni. Þá er því haldið fram að stofnunin sé fyrst og fremst dýrt skálkaskjól fyrir ráðherra sem eðlilegra væri að færi sjálfur með eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu, eins og venja er þegar ríkið á fyrirtæki í heild eða að hluta.

Í frumvarpinu kemur fram að ekkert hafi verið gert með tillögur fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, t.d. í málefnum sparisjóðanna. Eins hafi stofnunin látið hjá líða að gera athugasemdir við verklag við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem á stundum hafi verið í hrópandi ósamræmi við sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja sem viðskiptanefnd þingsins hafði aðkomu að.