Mikið kurr er meðal félagsmanna innan Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) en borist hefur tillaga um að leggja félagið niður og sameina það Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ). Aðalfundur FÍS fer fram í dag.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er stjórn FÍS klofin í afstöðu sinni og mikil óeining er meðal félagsmanna með tillöguna.

Stjórnarmennirnir þrír, Birgir S. Bjarnason, Bogi Þór Siguroddsson og Ólafur Ó. Johnson telja að vissulega geti verið ávinningur af samráðsvettvangi fyrir félög og samtök sem tilheyra verslun og þjónustu í landinu.

Tillagan um að leggja niður FÍS er að sögn þremenninganna lögð fram af Pétri Björnssyni, fyrrverandi formanns FÍS og Margréti Kristmannsdóttur, fyrrverandi varaformanns FÍS.

Allt stefnir í að tillagan verði felld með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða félagsmanna. Þá herma heimildir Viðskipablaðsins að framkvæmdastjóri FÍS, Andrés Magnússon, sem hart hefur barist fyrir sameiningunni, segi upp störfum að fundi loknum verði tillagan felld.