Lífeyrissjóðir skoða um þessar mundir kaup á 139 íbúðum á Hampiðjureitnum svokallaða við Stakkholt í Reykjavík. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fjárfestingin hljóði upp á 4,3 milljarða króna. Meðalstærð íbúða er í kringum 88 fermetrar og eru þær ætlaðar fyrir almennan leigumarkað. Áætlað er að fyrsta áfanga með 70 íbúðum ljúki haustið 2014.

Í Fréttablaðinu segir m.a. að framkvæmdir hafi byrjað á þessu ári en að þeim standa ÞG verktakar. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa skrifað undir samning við fjármálafyrirtækið Centra fyrirtækjaráðgjöf ehf. sem vinnur að því að kynna verkefnið fyrir helstu lífeyrissjóðum landsins.

Þá er haft eftir Sveini Halldórssyni, ráðgjafa lífeyrissjóðanna í húsnæðismálum, að verulegur skortur sé á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu, mun erfiðara fyrir ungt og tekjuminna fólk að kaupa sér húsnæði og því vert fyrir lífeyrissjóðina að kanna slíka fjárfestingarmöguleika.

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um kaup á íbúðunum, samkvæmt svörum Fréttablaðsins frá lífeyrissjóðunum.