Berlínarbúar munu kjósa um hvort borgaryfirvöld skuli gera um 240 þúsund íbúðir upptækar gegn „sanngjörnu“ endurgjaldi í næsta mánuði. Atkvæðagreiðslan er aðeins ráðgefandi, og óvíst hvort aðgerðin standist stjórnarskrá, en tæpur helmingur borgarbúa styður framtakið samkvæmt skoðanakönnunum.

Hart hefur verið tekist á um leigumarkað höfuðborgarinnar þýsku – bæði á stjórnmálasviðinu og fyrir dómstólum – síðustu ár í kjölfar mikilla verðhækkana, en 86% borgarbúa eru á leigumarkaði.

Atkvæðagreiðslan var sett á dagskrá í kjölfar þess að aðgerðasinnar söfnuðu tæplega tvöföldum lágmarksfjölda undirskrifta – um 350 þúsund í heildina – til að knýja hana fram. Hugmyndin er hluti af sífellt harðari deilum um leigumarkað Berlínar, sem hefur verið afar sveiflukenndur.

Spjótum beint að skráðum leigufélögum
Upptökunni er ætlað að ná til allra aðila sem eiga yfir þrjú þúsund íbúðir í borginni, sem eru leigufélög skráð á hlutabréfamarkað. Slíkum félögum hefur vaxið ásmegin í Evrópu síðasta hálfa annan áratug, en markaðsvirði þeirra er hátt í 13 þúsund milljarðar króna í dag, samanborið við rétt rúma 500 milljarða árið 2006.

Stuðningsmenn aðgerðanna saka félögin um að þvinga langtímaleigjendur með lágar tekjur út úr íbúðum sínum með því að hækka leiguna og vanrækja viðhald. Leiguverð í þýsku höfuðborginni hefur tvöfaldast á tíu árum, eftir að hafa verið fremur lágt í samanburði við aðrar þýskar borgir. Samhliða því hefur óánægja íbúa – sem margir hverjir voru orðnir vanir því hóflega leiguverði sem áður var – aukist jafnt og þétt.

Gagnrýnendur aðgerðanna segja þær ólöglegar, efnahagslega glórulausar og til þess fallnar að skapa sundrung. Bent hefur verið á að leiguþak sem tók gildi í fyrra gerði ekkert í rót vandans, sem er framboðsskortur, og ef eitthvað er illt verra. Í skoðanapistli á viðskiptamiðlinum Bloomberg segir Andreas Kluth, fyrrum blaðamaður og ritstjóri, að rétta leiðin til að taka á vandanum væri að auka framboð leiguíbúða, til dæmis með því að draga úr skriffinnsku og einfalda regluverk.

Framboð ekki haldið í við fólksfjölgun
Rekja má húsnæðisvanda borgarinnar allt aftur til aðskilnaðar hennar á kaldastríðsárunum, en Vestur-Berlín var eins konar eyja innan Austur-Þýskalands, og sem slík mikið niðurgreidd. Eftir fall Berlínarmúrsins og endursameiningu bæði lands og borgar var mikið framboð af íbúðum, og íbúum borgarinnar tók að fækka nokkrum árum síðar. Afleiðingin var mun lægra leiguverð en í öðrum þýskum stórborgum.

Lágt leiguverð, öflugt menningar- og næturlíf og gott framboð starfa fór hins vegar að laða að bæði innflytjendur og ungt fólk, og íbúafjöldaþróunin snerist við. Með auknum fólksfjölda kemur aukin eftirspurn eftir húsnæði, og ekki hefur tekist að auka framboð til samræmis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .