Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum leggur til að orlof verði 12 mánuðir og hámarksgreiðslur foreldris á mánuði verði 600 þúsund krónur. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins. Þá var einnig lagt til að tekjur allt að 300 þúsund krónur á mánuði skerðist ekki, en svo er málum háttað nú til dags.

Formaður starfshópsins var Birkir Jón Jónsson, en auk hans voru í hópnum fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólanema, BSRB, fjármála og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, SÍS og SA.

Þá kemur fram að ekki hafi náðst full sátt um allar tillögurnar. Helst voru það fulltrúar Samtaka atvinnulífsins sem mótmæltu bæði lengingu orlofsins úr níu mánuðum í ár sem og afnáms skerðingar mánaðargreiðslna yfir 300 þúsund krónur.