„Svandís Svavarsdóttir segir samfélagið þurfa að horfast í augu við að það taki ekki þátt í líf barnafjölskyldna frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólarnir taki við," segir í fréttatilkynningu frá Vinstri grænum.

„Þetta sagði hún í flutningsræðu sinni á Alþingi í dag þegar hún mælti fyrir einu þriggja forgangsmála þingflokks Vinstri grænna á þessu þingi, um lengingu fæðingarorlofs.

Lengist í þrepum

Tillaga frumvarpsins er að fæðingarorlof lengist úr 9 í 12 mánuði í tveimur þrepum. Þannig yrði það 11 mánuðir árið 2018 og 12 mánuðir 2019.

Svandís sagðist vona að rými væri til þess á þessu þingi að áherslur yrðu skoðaðar sem nytu stuðnings þvert á flokka og yfir línur stjórnar og stjórnarandstöðu.

Brúa bil orlofs og leikskóla

Hún sagði stöðu og kjör ungs fólks á Íslandi verulegt áhyggjuefni og benti á að ung fólk kysi sér búsetu út frá margskonar þáttum; stöðu á húsnæðismarkaði, aðgangi að menntun óháð efnahagsstöðu, og að hluti af afstöðu hópsins til búsetu væri staða ungbarnaforeldra og kjörin sem við byggðum þessum yngstu fjölskyldum.

Jafnframt minnti hún á ábyrgð kjörinna fulltrúa, hvort heldur á sveitastjórnarstigi eða á Alþingi, til að brúa bilið á milli orlofs og leikskólastigsins.

Mikilvægt væri að líta á mál af þessu tagi sem kjaramál barna, en ekki bara foreldra.

Hún sagði það sérstakt og afmarkað áhyggjuefni hversu miklar líkur væru á fátækt barna hér á landi, hlutfallslega meira en í nágrannaríkjunum, og að huga þyrfti sérstaklega að kjörum barnanna sjálfra.