Seðlabankinn leggur til að skipunartími seðlabanakstjóra og varaseðlabankastjóra verði lengdur í 6 til 7 ár. Lengri skipunartími sé til samræmis við það sem þekkist víða erlendis. Þetta kemur fram í umsögn Seðlabankans við frumvarp til laga um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME).

Seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri eru í dag skipaðir til fimm ára í senn en einungis er hægt að skipa þá tvívegis. Nýr seðlabankastjóri mun taka við af Má Guðmundssyni í ágúst sem lýkur þá sínu öðru skipunartímabili.

Hér að neðan má sjá skipunartíma seðlabankastjóra erlendis og nefndir eru í umsögn Seðlabankans:

  • Ástralía 7 ár
  • Bretland 8 ár - má einungis skipa einu sinni
  • Danmörk - ótímabundin skipun
  • Finnland 7 ár - má einungis skipa tvisvar
  • írland 7 ár
  • Kanada 7 ár
  • Noregur 6 ár - má einungis skipa tvisvar
  • Nýja-Sjáland 5 ár
  • Svíþjóð 5-6 ár

Vilja úttekt á rekstri FME

Þá segja Samtök fjármálafyrirtækja í umsögn sinni að ástæða sé til að framkvæma óháða úttekt á rekstri FME vegna sameiningar við Seðlabankann. Margt sé óljóst sem snúi að sameiningunum. Eftirlitsgjald sem fjármálafyrirtæki greiði FME nemi 2,3 milljörðum króna í ár og hafi hækkað mikið undanfarinn áratug. Þá sé síaukinn kostnaður hjá fjármálafyrirtækjum af gagnavinnslu og gagnaskilum til eftirlitsaðila. Hægt ætti að vera að hagræða í rekstri FME og Seðlabankans með sameiningu stoðdeilda og að samræma gagnaskil milli stofnanna.