Tillaga til þingsályktunar um almenna sölu á CBD, eða svokallaðri connabidiol-olíu, sem unnin eru hampjurtinni, hefur verið lögð fyrir Alþingi. Lagt er til að fela heilbrigðisráðherra að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum og leggja fram frumvarp, til að gera sölu á vörum sem innihalda CBD heimila í almennri sölu, á haustþingi 2020.

Tillagan er flutt af ellefu þingmönnum úr öllum flokkum að Vg undanskildum. Halldóra Mogensen (Pírata), Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Samfylkingu), Álfheiði Eymarsdóttur (Pírata), Björn Leví Gunnarsson (Pírata), Guðmundur Ingi Kristinsson (Flokkur fólksins), Hanna Katrín Friðriksson (Viðreisn), Jón Þór Ólafsson (Píratar), Vilhjálmur Árnason (Sjálfstæðisflokki), Willum Þór Þórsson (Framsóknarflokki), Þorgerður K. Gunnarsdóttir (Viðreisn), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Pírata).

Í greinargerð með þingsályktuninni er fjallað um notagildi hampjurtarinnar m.a. í iðnaðarframleiðslu og framleiðslu á fæðubótarefni, matvælum, snyrtivörum og lyfum. Úr jurtinni sé hægt að vinna virku efnin THC og CBD, en hið fyrrnefnda er vímugjafi sem valdi því að jurtin er bönnuð.

„Tekur ákvæðið hvort tveggja til plantna innan kannabisættkvíslarinnar og þeirra efna sem unnin eru úr þeim plöntum. Helstu virku efni kannabisplantna eru THC (tetrahydrocannabinol), sem er vímugjafi og CBD (cannabidiol), sem er ekki vímugjafi. Bæði efnin hafa læknisfræðilegt notagildi og má nota þau í ýmsum tilgangi, en vegna skilgreiningar á kannabisi og afleiðum þess sem ávana- og fíkniefnis, eða ávana- og fíknilyfs þegar um er að ræða tilbúin lyf, eru vörur sem innihalda THC eða CBD lyfseðilsskyld, eftirritunarskyld og Z-merkt. Slík lyf verða því aðeins fengin gegn ávísun læknis með sérfræðimenntun,“ segir m.a. í greinargerðinni, sem lýkur með eftirfarandi orðum:

„Eftirspurn eftir aðgengi að vörum sem innihalda CBD hér á landi er nú þegar talsverð. Rétt er að bregðast við þeirri eftirspurn og heimila slíkt aðgengi, enda eru engin rök sem mæla gegn því. Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga. Er því lagt til með þingsályktunartillögu þessari að ráðherra verði falið að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum til þess að heimila að vörur sem innihalda CBD verði aðgengilegar í almennri sölu. Ef þess þarf leggi ráðherra einnig fram frumvarp til laga til nauðsynlegra breytinga á lögum.“

Þess má geta að sala á varningi sem inniheldur CBD hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár í Bandaríkjunum. Samkvæmt skýrslu sem fjallað er um í viðskiptatímaritinu Forbes er reiknað með að markaður með efnið muni velta 20 milljörðum dollara árið 2024.