Áætlaður kostnaður við olíuleit hér á landi frá því að fyrstu sérleyfin voru gefin út í ársbyrjun 2013 hafði numið fjórum milljörðum króna síðasta vor samkvæmt svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráherra, við fyrirspurn á Alþingi. Skúli Thoroddsen, lögfræðingur hjá Orkustofnun, bendir á að greiðslur sérleyfishafa til ríkisins vegna sérleyfanna hafi verið þónokkrar og mest numið um og yfir 100 milljónum króna á ári þegar öll sérleyfin voru virk.

Verðmæti í rannsóknum á erfiðum jarðlögum

Skúli bendir á að sérleyfi sem var að stærstum hluta í eigu Faroe Petroleum hafi verið skilað inn þar sem erfitt hafi verið að sjá í gegnum basaltlögin. „Það var of dýrt að fara í borun, það var ekki talið svara kostnaði.“ Olíuvinnsla ódýrari með tækniframförum Hins vegar geti hlutirnir breyst hratt og tæknin við olíuvinnslu hafi þróast og orðið ódýrari. „Það sem var óhagkvæmt fyrir tveimur árum er orðið hagkvæmt í dag,“ segir hann.

Statoil tilkynnti í desember að kostnaður við olíuvinnslu á svæðinu Johan Castberg í Barentshafi um 240 kílómetrum norður af Norður-Noregi, hafi fallið verulega. Upphaflega hafi verið áætlað að heimsmarkaðsverð á hráolíu þyrfti að vera yfir 80 dollurum á tunnu svo olíuvinnslan komi út á sléttu.

Tímamót verða við olíuleit á Drekasvæðisins þann 23. janúar en þá þurfa leyfishafar af síðasta sérleyfinu til olíuleitar á íslenska hluta Drekasvæðisins að tilkynna Orkustofnun hvort þeir hyggist fara á annað stig olíuleitar við Íslandsstrendur eða gefa sérleyfið frá sér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .