Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkið ráðist gegn ójöfnuði sem felist í misgóðum nettengingum á íslenskum heimilum. Þannig sé óviðunandi að hraði á internettengingum á höfuðborgarsvæðinu og í dreifbýli sé ekki sá sami og að bændum og öðrum sem búa úti á landsbyggðinni sé gert að búa við skert lífsgæði vegna þessa.

„Framkvæmdir fjarskiptafyrirtækjanna á landsbyggðinni við lagningu ljósnets hafa ekki náð til mesta dreifbýlisins og þar þyrfti að leggja ljósleiðara heim að hverjum bæ sem getur verið afar kostnaðarsamt, og hefur fjarskiptafyrirtækjum ekki þótt slíkar framkvæmdir svara kostnaði," segir í tillögunni.

„Af því leiðir að fjöldi fólks býr við skert lífsgæði, enda internetið orðið svo snar þáttur í daglegu lífi fólks hér á landi og um heim allan. Nauðsynlegt er að hið opinbera stigi inn og komi til móts við netveitur með það að markmiði að tryggja jafnræði allra landsmanna til netaðgangs. Í því skyni mætti virkja og styrkja betur ýmsa sjóði sem þegar eru fyrir hendi. Má hér nefna alþjónustusjóð, fjarskiptasjóð og jöfnunarsjóð sveitarfélaga."

Vilja lögfestingu nethlutleysis

Í þingsályktunartillögunni er einnig fjallað um svokallað nethlutleysi, eða „Net Neutrality". Píratar vilja að fest verði í lög hér á landi að fjarskipafyrirtækjum sé óheimilt að mismuna netnotendum eftir því hvaða tegund af efni þeir sækja af internetinu. Þannig verði óheimilt að úthluta bandvídd, og þar með hraða niðurhals, eftir því hvaða tegund af efni notendur sækja sér. Píratar telja að slíkt fyrirkomulag myndi gera hefðbundnum notum og litlum fyrirtækjum erfitt fyrir að nýta sér kosti internetsins.