Staða fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna var í brennidepli á ráðherrafundi ríkjanna í Genf. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat fundinn.  Lýstu ráðherrarnir meðal annars eindregnum vilji til að ljúka fríverslunarviðræðum við Indland hið fyrsta.

„Farið var yfir stöðuna í viðræðum EFTA við Víetnam og Malasíu en samningalotur í viðræðum við þau er ýmist nýlokið eða á næsta leiti," segir í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins. „Staðfest var að þráðurinn yrði ekki tekinn upp að nýju í viðræðum EFTA við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan, sem var frestað ótímabundið fyrr á árinu, fyrr en friðvænlegar horfi í Úkraínu."

Á fundinum upplýsti Gunnar Bragi ráðherra hinna EFTA-ríkjanna um viðræður sínar við utanríkisráðherra Brasilíu, Luiz Alberto Figuereido í október sl. en þeir ræddu  möguleikann á að hefja fríverslunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og MERCOSUR-viðskiptabandalagsins, sem Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela eru aðilar að. EFTA og MERCOSUR undirrituðu samstarfsyfirlýsingu árið 2000 og kvaðst Figuerido ætla að kalla saman sameiginlega nefnd þeirra þegar Brasilía tekur við formennsku í bandalaginu í byrjun næsta árs."

Á fundinum lýstu ráðherrarnir ánægju með að fríverslunarviðræður við Filippseyjar væru að hefjast. Einnig var ákveðið að EFTA myndi hefja viðræður við Georgíu.

„Þeir voru sammála um að efla tengsl EFTA og ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur Asíu, svo og við einstök Afríkuríki, s.s. Nígeríu. Þá voru þeir á einu máli um mikilvægi þess að útvíkka gildandi fríverslunarsamninga við Tyrkland, Kanada og Mexíkó."